top of page

Apríl 4, 2024

Sáluhjálp mín

Í þá daga gengu nunnur um ganga skólans og prestar réðu öllu milli himins og jarðar. Þannig hafði það verið í langan tíma, allt frá því að skólinn var stofnaður á þessari sömu lóð og löngu áður en ég steig fæti þar inn. Faðirvorið var þulið á morgnana, stundum á milli samanbitinna tanna, og hver einasti kennari og starfsmaður var einhvers konar furðufugl eða sérvitringur. Allt frá smíðakennaranum, Sveini, risavöxnum manni með átta og hálfan putta, til Helgu umsjónarkennarans, sem minnti á spákonu í gömlu ævintýri.

Apríl 30, 2023

Tengingar

Fyrir nokkrum árum var ég sannfærður um að ég myndi deyja ungur. Að ég myndi deyja bráðum. Ætti í mesta lagi ár eftir eða svo. Það breyttist allt þegar Arnór dó. Kata, fyrrverandi kærastan hans, sagði mér fréttirnar. Ég var á leiðinni heim úr ræktinni þegar ég leit á símann.

Arnór er dáinn.

Það var allt og sumt. Ég vissi að hún væri ekki að ljúga. Það fyrsta sem mér datt í hug að gera var að kaupa mér sjitt tonn af kókaíni og áfengi, fara heim og stúta því. En ég vissi að ég myndi vakna ónýtur daginn eftir. Og að Arnór myndi ennþá vera dauður.
Ég kynntist Arnóri í gegnum sameiginlegan vin.

Apríl 11, 2023

Bylgjulengdir

Lilja var mætt á fundinn korter í. Hún bjóst við að vera fyrst á svæðið — en fólk var þegar farið að tínast inn. Þær örfáu hræður sem voru sestar voru á svipinn eins og þær væru á leiðinni í aftöku. Þeir sem voru í kaffinu komu inn á harðahlaupum, settu skál á borðið við dyrnar, fóru aftur út og komu inn með heitar te- og kaffikönnur.
Bjöggi var mættur. Hann stóð upp og tók sér stöðu við kaffikönnuna og þrýsti á handfangið. Heitur vökvi streymdi ofan í bollann og lyktin blandaðist við fúkkann í herberginu. Hann var klæddur í ljósbláa skyrtu girta ofan í fínstraujaðar svartar buxur. Hann var í lögfræðinámi og klæddist alltaf jakkafötum á fundunum.
„Hvernig gengur hjá þér?“ spurði hann Lilju sem stóð fyrir aftan hann og beið eftir að komast að. Hann hafði verið að reyna að sofa hjá henni síðan hann byrjaði í samtökunul.

Febrúar 28, 2020

Sara og Dagný og ég

Ég er stödd í strætó og stór og mikil svört kona horfir á mig eins og ég sé dóttir hennar. Hún er bæði áhyggjufull og vonsvikin á svipinn. Ljósin í strætónum flökta – perurnar eru að deyja. Ég reyni að virðast eðlileg, en vofan í rúðunni á vagninum kemur upp um mig. Hún er föl í framan og það eru baugar undir augunum.
Ég er á leiðinni upp í Mjódd að koppa stykki. Ég féll á benzo í gær – og mig langar að skríða inn í litlu skelina inni í mér. Mér líður eins og ég hafi ferðast nokkur ár aftur í tímann. Dagný sagðist ætla að taka sýru með mér um helgina, en bara ef við erum með dísur þegar við erum að koma niður.
„Ætlarðu út?“
Ung stelpa, hálfasísk í útliti, horfir á mig.
„Ha?“
„Ætlarðu út?“ segir hún.
Ég skil ekki spurninguna.
„Já?“ segi ég. „Á endanum.“
„Í Mjódd?“
„Já.“
„Geturðu gert mér greiða?“ segir hún. „Geturðu fylgt mér að bílnum mínum? Ég vil ekki labba ein.“

Nóvember 6, 2019

Verslunarmannahelgin

Mamma hans og pabbi voru löngu farin að sofa. En strákurinn var ekki þreyttur. Hann sat glaðvakandi uppi í jeppa pabba síns og hlustaði á tónlist dynja úr græjunum. Þetta var um verslunarmannahelgi, og það iðaði allt af lífi á tjaldsvæðinu. Það voru allir uppteknir við eitthvað, nema strákurinn. En hann klæjaði í lófana að gera eitthvað.
Það hvarflaði aldrei að honum að hann væri ef til vill of ungur fyrir nær allt sem fram fór á tjaldsvæðinu. Hann leit út fyrir að vera eldri en hann var og einmitt á þeirri stundu var hann fullkomlega óhræddur. Kannski var það mannblendnin — hann langaði að hitta fólk. Blanda geði.
Hann opnaði dyrnar á jeppanum, lét líkamann síga á grasið. Það var vott og frískandi undir fótum hans. Hann dró djúpt inn andann, og andaði hvasst út um munninn. Himinninn gaf frá sér fjólubláan bjarma, líkt og það væri óljóst hvort það væri sumar eða haust — dagur eða nótt. Kvöldroði. Kærkomið sumarkvöld fyrir 12 ára dreng.
Hann sá ungt fólk sitja í hring í kringum varðeld.

Maí 7, 2019

Sjáðu!

Við sátum á kaffihúsi í Vesturbænum. Á gömlum viðarstólum við viðarborð sem lagaði sig að okkur eins og ábreiða á rúmi. Hún strauk á mér handlegginn með fíngerðum höndunum og ég strauk hennar hendur líka. Hélt í þær fast inn á milli, eins og nýfædd börn halda í hendurnar á manni. Þau eru máttlaus en gripið er sterkt. Oft sterkara en hjá fullorðnum.
Ég drakk kaffi. Hún drakk bjór. Ég hafði verið edrú í 13 daga þetta kvöld.
Við höfðum verið að kyssast og faðmast og knúsast og gera alla þá hluti sem fólk í þessu ástandi gerir. Ég veit að þú veist hvað ég á við. Hún strauk opinn lófa minn með þremur fingrum. Hreyfði þá og strauk endurtekið í lófa minn, líkt og hún væri að græða gömul sár.
„Veistu hvað þetta þýðir?“ spurði hún.
„Hvað?“
„Neei, æji! Það er of snemmt fyrir mig að segja það … “
Þetta var í fjórða skiptið sem við hittumst.
„Ókei.“
„Mamma gerði þetta alltaf við mig þegar ég var lítil.“

  • Instagram
  • Facebook
  • Instagram
  • Facebook

© 2024 Ísak Regal

bottom of page