Skraddari
ég var alinn upp af klæðskerum af gyðingaættum
enginn kenndi mér að skrifa
augljóslega
en ég lærði sniðagerð og saumavinnu
ég lærði að vera útsjónarsamur og nákvæmur
mest af öllu lærði ég að vanda mig
þegar ég sagði pabba að ég ætlaði í háskóla
hélt hann að ég ætlaði að gerast
læknir eða lögfræðingur
hann skildi ekki hvers vegna ég ætlaði að læra íslensku
ég kunni jú íslensku
svo fetaði ég mig áfram
sneið nýjan hreim, nýtt viðmót
svo ég yrði tekinn alvarlega
en stundum þegar ég er að strauja
hugsa ég um það sem pabbi sagði mér
um að maður eigi alltaf að klæða sig í jakkafötin
að minnsta kosti hálftíma áður en maður fer út
svo maður verði ekki stífur og líði ekki óþægilega
og ég tel mig vera heppinn
að hafa fengið svona góð ráð
Kvöldroði
ég sest á hækjur mér
hjá lækjarsprænunni
dýfi
fingrunum í vatnið
finn kaldan strauminn
silast um mig
þungur hiti sólarinnar
hvílir á andlitinu
en fyrir ofan mig rís
rengluleg trjáþyrping
og skýlir mér örlítið
fyrir brennandi depli
ég er feginn svalanum.
ég vissi að ég myndi
verja nóttinni
í skóginum
ég hafði vitað það
síðan í morgun
og,
að ég myndi verja deginum
við ána
kannski rölta aðeins í bæinn
eyða síðustu krónunum á Ak-Inn
ég verð bara að vona
að enginn beri kennsl á mig
nú þegar ég er frjáls
í kvöldroðanum