top of page

Sjáðu!

  • Writer: Ísak Regal
    Ísak Regal
  • May 7, 2019
  • 3 min read

Updated: Apr 11, 2023


Við sátum á kaffihúsi í Vesturbænum. Á gömlum viðarstólum við viðarborð sem lagaði sig að okkur eins og ábreiða á rúmi. Hún strauk á mér handlegginn með fíngerðum höndunum og ég strauk hennar hendur líka. Hélt í þær fast inn á milli, eins og nýfædd börn halda í hendurnar á manni. Þau eru máttlaus en gripið er sterkt. Oft sterkara en hjá fullorðnum.

Ég drakk kaffi. Hún drakk bjór. Ég hafði verið edrú í 13 daga þetta kvöld.

Við höfðum verið að kyssast og faðmast og knúsast og gera alla þá hluti sem fólk í þessu ástandi gerir. Ég veit að þú veist hvað ég á við. Hún strauk opinn lófa minn með þremur fingrum. Hreyfði þá og strauk endurtekið í lófa minn, líkt og hún væri að græða gömul sár.

„Veistu hvað þetta þýðir?“ spurði hún.

„Hvað?“

„Neei, æji! Það er of snemmt fyrir mig að segja það … “

Þetta var í fjórða skiptið sem við hittumst.

„Ókei.“

„Mamma gerði þetta alltaf við mig þegar ég var lítil.“

Hún brosti fallega og strauk opinn lófa minn með þremur fingrum.

„Viltu koma út?“ spurði ég. „Kannski ganga eitthvað?“

Hún kinkaði kolli.

„Mhm.“

Við tókum yfirhafnirnar okkar af stólbökunum og gengum út í áttina að sjónum.

„Förum þangað!“ sagði hún.

„Hvert?“

„Þar sem sjóræningjahúsið er.“

„Hvaða sjóræningjahús?“

„Það er svona sjóræningjahús þarna.“

„Hvernig er það sjóræningjahús?“

„Æji, það er erfitt að útskýra það!“

„Sýndu mér.“

„Já.“

Hún brosti og beit örlítið í tunguna á sér. Hún er ung. Yngri en ég. Og þó er ég ekki kominn langt yfir tvítugt. En þegar ég er með henni núna, finnst mér eins og allt sé nýtt og heimurinn opinn fyrir möguleikum sem ég hafði aldrei látið mig dreyma um áður.

„Sérðu?“

„Já, ég sé.“

En ég var ekki að horfa á sjóræningjahúsið sem hún var að horfa á. Ég var að horfa á hana. Og ég var líka að horfa á mig í gegnum hana. Það er sársaukafullt að vera ástfanginn og horfa á sjálfan sig. Það er eins og að dreyma allan tímann og svo vakna. Vakna í galopinni óvissu um allt.

„Ég var dreymandi allan tímann, og svo komst þú,“ sagði ég.

Hún brosti að þessu. Og kyssti mig. Kyssti mig aftur og aftur og aftur og aftur. Brosti og kyssti mig. Bros, koss, sami hluturinn.

Það stingur í að vera svona hrifinn.

„Sjáðu!“

Við vorum stödd á Ægisíðunni. Það var dimmt úti og stjörnubjart. Nóttin hélt okkur föstum í viðjum sínum. Það voru norðurljós á himninum. Þau voru græn og leiftrandi. En mér fannst það ekki skipta máli. Ég hafði séð þau áður. Ég hafði séð svo margt áður. Hvolfið þakti það sem umlukti okkur og hún rykkti höfðinu til hliðar og upp. En hún var ekki að horfa á stjörnurnar. Stjörnurnar voru að horfa á hana.

Seinna um nóttina tók hún strætó heim. En fyrir það sátum við saman á bekk í strætóskýli og kysstumst löngum og ástríðufullum kossum. Regnið féll á dimmar göturnar. Bílar keyrðu framhjá í vætunni. Ég heyrði dropana bylja á þakinu fyrir ofan okkur. Ég hugsaði að þetta gæti ekki verið tilviljun. Þessir dropar voru ekki til. Ég var að ímynda mér þá, og strætóskýlið líka og nóttina og hana. Og hún var að ímynda sér það nákvæmlega sama. Einhvers staðar í herbergi á bakvið luktar dyr.

Við rétt náðum að slíta okkur frá hvort öðru þegar strætóinn kom og hún stökk inn. Ég kyssti hana í síðasta sinn, tók um hálsinn á henni og gekk svo einn út í nóttina. Og enn og aftur var heimurinn ekki til.


Sáluhjálp mín

Í þá daga gengu nunnur um ganga skólans og prestar réðu öllu milli himins og jarðar. Þannig hafði það verið í langan tíma, allt frá því...

 
 
 
Tengingar

Fyrir nokkrum árum var ég sannfærður um að ég myndi deyja ungur. Að ég myndi deyja bráðum. Ætti í mesta lagi ár eftir eða svo...

 
 
 
Bylgjulengdir

Lilja var mætt á fundinn korter í. Hún bjóst við að vera fyrst á svæðið — en fólk var þegar farið að tínast inn. Þær örfáu hræður sem...

 
 
 
  • Instagram
  • Facebook
  • Instagram
  • Facebook

© 2024 Ísak Regal

bottom of page