Verslunarmannahelgin
- Ísak Regal
- Nov 6, 2019
- 8 min read
Updated: Aug 5, 2023
Mamma hans og pabbi voru löngu farin að sofa. En strákurinn var ekki þreyttur. Hann sat glaðvakandi uppi í jeppa pabba síns og hlustaði á tónlist dynja úr græjunum. Þetta var um verslunarmannahelgi, og það iðaði allt af lífi á tjaldsvæðinu. Það voru allir uppteknir við eitthvað, nema strákurinn. En hann klæjaði í lófana að gera eitthvað.
Það hvarflaði aldrei að honum að hann væri ef til vill of ungur fyrir nær allt sem fram fór á tjaldsvæðinu. Hann leit út fyrir að vera eldri en hann var og einmitt á þeirri stundu var hann fullkomlega óhræddur. Kannski var það mannblendnin — hann langaði að hitta fólk. Blanda geði.
Hann opnaði dyrnar á jeppanum, lét líkamann síga á grasið. Það var vott og frískandi undir fótum hans. Hann dró djúpt inn andann, og andaði hvasst út um munninn. Himinninn gaf frá sér fjólubláan bjarma, líkt og það væri óljóst hvort það væri sumar eða haust — dagur eða nótt. Kvöldroði. Kærkomið sumarkvöld fyrir 12 ára dreng.
Hann sá ungt fólk sitja í hring í kringum varðeld. Annar ungu mannanna hélt á gítar og hinn á Gajol-flösku. Strákurinn hafði smakkað Gajol-nammi, og hugsaði að drykkurinn hlyti að vera svipaður á bragðið. Tvær ungar konur sátu með mönnunum. Önnur þeirra hafði arminn utan um þann sem hélt á Gajol-flöskunni.
„Hæ!“ sagði strákurinn. „Hvað segið þið?“ Strákurinn gerði sér lítið fyrir og settist hjá þeim án þess að biðja um leyfi.
Önnur ungu kvennanna skellti upp úr. Mennirnir brostu í kampinn og kinkuðu kolli til hvor annars. En brosið hélst óbreytt á stráknum.
„Hver ert þú?“ spurði maðurinn sem hélt á Gajol-flöskunni.
„Rökkvi,“ sagði strákurinn.
„Rökkvi?“ sagði maðurinn. „Hvers konar nafn er það?“ sagði hann og fékk sér sopa.
„Það er bara mitt nafn,“ sagði Rökkvi. Þau sátu öll á teppum fyrir utan manninn sem hélt á Gajol-flöskunni. Hann virtist ekki taka eftir því að grasið væri blautt.
Þau voru ef til vill ekkert sérlega ánægð með að Rökkvi settist hjá þeim, en þau voru ekki nógu ósátt heldur til að reka hann í burtu. Það fór ekki mikið fyrir honum, og stundum gleymdu þau að hann sæti þarna. Allir drukku bjór og spjölluðu. Rökkvi hlustaði vandlega á hvert einasta orð í hverjum einustu samræðum og sneri höfðinu alltaf að þeim sem talaði. Foreldrar hans voru farnir að sofa. Hann var sjálfs sín herra.
„Viltu skot?“ spurði ljóshærði ungi maðurinn eins og ekkert væri eðlilegra. Það var eins og hann væri að spyrja hann hvað klukkan væri.
„Já,“ sagði Rökkvi. Honum fannst það skylda sín að segja já.
Hann sturtaði í sig sopa, barðist við gretturnar sem mynduðust á andlitinu, og rétti einhverjum við hliðina á sér flöskuna. Allir hlógu. Nema önnur ungu kvennanna. Hún sagði:
„Æjji, strákaaar, ekki gefa honum,“ sagði hún. „Hann er bara krakki!“
„Já en hann er sætur samt,“ sagði hin unga konan. Hún var dökkhærð, með djúpstæð, brún augu.
Rökkvi brosti hundsglotti — eins og tannlaust barn brosir án þess að vita af tannleysi sínu. Unga konan blikkaði hann, brosti útpældu, en einhvern veginn eðlislægu brosi. Fallegasta brosi sem hann hafði séð.
„Látt’ekki svona!“ sagði ungi maðurinn sem sat við hliðina á henni. Hann lét vinstri arminn á öxlina á konunni og dró hana til sín. Síðan fékk hann sér sopa af flöskunni. Konan sem hafði útnefnt hann krakka sat með krosslagða fætur og sötraði úr lítilli dós. Hún var með teppi um axlirnar. Það varð vandræðaleg þögn. Og Rökkvi hélt hann yrði ekki eldri þegar annar ungu mannanna byrjaði allt í einu að spila á gítarinn. Hann sló nokkrar nótur, sem fljótlega urðu að lagi. Og að endingu tók tónlistin yfir þögnina. Þau héldu áfram að gefa Rökkva skot úr Gajol-flöskunni þrátt fyrir mótbárur ungu konunnar með teppið um axlirnar. Og að lokum gafst hún upp á að skamma þau. Fyrr en varir leið Rökkva eins og hann væri orðinn einn af þeim. Hann reyndi að taka þátt í samræðum. Hann sat á rassinum, með olnboga á hnjám, vinstri höndin hélt utan um hægri höndina, og í henni hélt hann á Gajol-flöskunni. Hann hélt á henni eins og hann drykki svona flösku á hverju einasta kvöldi.
„Hvar eru foreldrar þínir eiginlega?“ spurði ljóshærði ungi maðurinn með gítarinn.
„Þau eru inni í tjaldi, sofandi,“ sagði Rökkvi. „Ég held þau hafi drukkið of mikið.“ Allir hlógu. Rökkvi hafði ekki hugmynd hvort foreldrar hans hefðu drukkið eða ekki.
„Kannski ættiru að fara og vekja þau?“ sagði hinn ungi maðurinn, kærasti dökkhærðu konunnar. Rökkva fannst erfitt að horfa í augun á honum. Kærastan hans var fallegt, undursamlegt dýr. En hann sjálfur var eins og hrætt, viðkvæmt dýr. Rökkva leið eins og hann hefði gert honum eitthvað.
„Nei nei nei,“ sagði ljóshærði maðurinn með gítarinn. „Vertu ekkert að því,“ sagði hann. „Það er algjör óþarfi. Vertu bara með okkur,“ sagði hann og brosti.
Ljóshærða unga konan horfði á Rökkva. Hún var með prjónahúfu á höfðinu, klædd í lopapeysu og með sundurkroppað naglalakk á smáum nöglum. Rökkvi fann augnaráð hennar á sér. Og þegar hann horfði í augun á henni sá hann hversu áhyggjufull hún var. Það var eins og hún væri barnapían hans og vinir hennar í hringnum hefðu komið óvænt í heimsókn meðan hún var að passa og hleypt öllu í bál og brand. Rökkvi fékk sér annan slurk. Hann heyrði hvöss orðaskipti á milli kærustuparsins. „Já af hverju ferð þú þá ekki bara!?“ heyrðist sagt.
„Af hverju þarftu að láta svona við hana?“ sagði ljóshærða konan við dökkhærða manninn.
„Gaur, kom on,“ sagði ljóshærði maðurinn með gítarinn. „Slakaðu bara á.“
Dökkhærði maðurinn setti vísifingur á loft og var við það að fara að segja eitthvað þegar Rökkvi greip fram í fyrir honum.
„Já! Af hverju ertu svona leiðinlegur við hana!?“ Allir horfðu á Rökkva. Hann var fullur. Og hann tók eftir því að hann var farinn að tala óskýrt. Hann tók líka eftir því að hann hélt ekki lengur á Gajol-flöskunni. Það var einhver annar með hana.
„Jæja, lilli,“ sagði dökkhærði maðurinn. „Vilt þú ekki fara að koma þér heim? Ég held það sé kominn háttatími hjá þér,“ sagði hann. Rökkvi starði á hann meðan hann klöngraðist á fætur.
Grasið var enn blautt. Og Rökkvi fann að hann var allur blautur á rassinum. Það var dimmara úti en hann minnti. Himinninn var dekkri. Augu hans rötuðu ósjálfrátt í augun á dökkhærðu konunni.
Þau yrðu aldrei saman. Svo mikið var víst.
„Það er kannski best að þú farir,“ sagði ljóshærða konan skyndilega. „Foreldrar þínir gætu haft áhyggjur af þér.“
„Já, vinur minn. Það er örugglega rétt hjá henni,“ sagði ljóshærði ungi maðurinn.
„Rökkvi,“ sagði Rökkvi. Hann stóð með erfiðismunum í fæturna. „Ég heiti Rökkvi.“ Hann sagði þetta eins og hann væri prins að tilkynna komu sína í kastala konungs. Hann hikstaði.
„Jæja, Rökkvi,“ sagði dökkhærði maðurinn. Dökkhærða konan horfði á Rökkva — í fyrsta sinn á ævinni kom hún ekki upp orði.
„Það var rosalega gaman að vera með ykkur í kvöld,“ tilkynnti Rökkvi. „Ég sé ykkur vonandi síðar.“
Hann snerist á hæli.
„Ekki segja foreldrum þínum hvar þú fékkst áfengi!“ heyrðist kallað fyrir aftan hann. Rökkvi reisti hönd á loft í kveðjuskyni. Hann deplaði augum nokkrum sinnum, fann að hann sá allt á ská. Ljósið var á leiðinni að sækja hann. Hann leit upp og í fjarska kom hann auga á sköllóttan mann í leðurjakka. Maðurinn var eins og klipptur út úr bíómynd. Hann stóð við stórt mótorhjól sem hallaði á standi á grasinu. Við hlið hans stóð mjó og fölleit kona og þau reyktu bæði mjóar og langar sígarettur.
Rökkva hafði aldrei langað í sígarettu á ævinni. En nú fannst honum eins og hann þyrfti að reykja. Og hann sá ekkert athugavert við það að biðja þetta ókunnuga fólk um smók. Sköllótti maðurinn í leðurjakkanum blés sígarettureyk út um nefið og sneri baki í hann, en þegar Rökkvi nálgaðist þau setti hann hönd hátt á loft og kallaði háum rómi:
„Hæhæ!“
En áður en Rökkvi gat komið upp spurningunni var maðurinn búinn að snúa sér við og taka hann haustaki. Rökkvi varð svo hissa að það tók hann smástund að átta sig. Hann reyndi að streitast á móti. Hann spriklaði eins og fiskur á þurru landi og kastaði útlimunum í allar áttir. Hann reyndi hvað hann gat að losa sig en hálsinn var pikkfastur. Sköllótti maðurinn þrengdi að honum.
„HVAÐ ERT’AÐ GERA?!“ hrópaði mjóleita konan. „SLEPPT’ONUM!“
Rökkvi reyndi að kýla aftur fyrir sig. Hann reyndi að ná stjórn á líkamanum. Og það rann skyndilega upp fyrir honum að hann gæti dáið á hverri stundu.
„HANN ER AÐ BLÁNA Í FRAMAN, SÉRÐU ÞAÐ EKKI?!“
Rökkvi fann mjóar hendur konunnar basla við hálsinn. Mentól fnykur og ilmvatnslykt fylltu vit hans.
Á einhvern óútskýranlegan hátt tókst Rökkva að slíta sig lausan. Hann féll á grasið, reisti sig jafnskjótt upp í stöðu spretthlaupara, og tók á rás í átt að jeppa pabba síns. Hann leit ekki aftur fyrir sig. Það glumdi í eyrunum á honum. Fótatakið undir honum sló í takt við hjartsláttinn.
Rökkvi stökk upp í bílinn og læsti dyrunum í flýti. Hann andaði. Þungt og fast. Hann þurfti að heyra tónlist. Strax. Queen. Hann setti á uppáhaldslagið sitt með þeim, og það hafði aldrei hljómað jafn vel. Rökkvi hækkaði í botn og hallaði sér aftur í sætinu. Hann lagði aftur augun og hugsaði um ekki neitt. Augu dökkhærðu konunnar birtust honum og hurfu jafnskjótt. Hann sá eldglæringar í þeim. Þessum djúpstæðu, brúnu augum. Lagið ómaði í bílnum. Vá, hvað ég elska þetta lag, hugsaði Rökkvi. Hann byrjaði að ýta á bílflautuna í takt við lagið. Hann spáði ekkert í hávaðanum. Í hans huga var hann allur inni í bílnum. Það hvarflaði aldrei að honum að bílflautið heyrðist mögulega út um allt tjaldsvæðið. Að fólk gæti hugsanlega vaknað við hávaðann. Að hann væri hugsanlega orðinn miðpunktur athyglinnar. Hann sló botninn í lagið með ímynduðum trommukjuðum. En rétt áður en næsta lag hrökk í gang, bankaði pabbi hans á bílrúðuna farþegamegin. Rökkvi kipptist til í sætinu. Hann varð skelfingu lostinn þegar hann sá andlit pabba síns. Honum leið eins og það væri komið að endalokunum. Rökkvi tók bílinn úr lás. Pabbi hans opnaði bíldyrnar og horfði á hann. Það var ró yfir augnliti hans. En hann var maður sem erfitt var að lesa. Rökkvi vissi hvorki í þennan heim né annan. Hann var fullur í fyrsta skipti í bíl pabba síns.
„Hvað segiru … varstu að fá þér aðeins í glas?“
Rökkvi var alveg að gera á sig.
„Jáá … “ muldraði hann skömmustulega. Hann vissi að hann yrði að játa. Pabbi hans vissi alltaf allt hvort eð er.
„Jæja, kallinn minn,“ sagði pabbi hans og gaf honum bendingu um að koma til sín. Rökkvi mjakaði sér yfir til hans. Hann fann líkamann skjálfa. Hann varð fölur í framan og andlitsdrættirnir herptust saman. Hann ætlaði að taka í útrétta hönd föður síns, leyfa honum leiða sig út úr bílnum, en í stað þess að stíga rólega út í fanginu á honum, fann hann skyndilega glóðvolgan vökva rísa upp í kokinu á sér og dembast út um munnvikin. Líkaminn tók kipp, og vökvinn flæddi upp úr honum eins og spjót.
Það síðasta sem hann mundi, áður en myrkrið gleypti hann, var að hann hrapaði af himninum, og sveif í loftinu milli grassins og jeppans.
Ljósið kom og sótti hann. Hann var farinn um ókomna tíð.
*
Það var hlýtt úti þegar hann vaknaði. Kaldur sviti harðnaði á Rökkva. Rúmið var mjúkt undir honum. Hann var í bílskúrnum heima. Þetta var reyndar enginn venjulegur bílskúr. Þetta var meira eins og íbúð. Pabbi hans kallaði það hobbýherbergið. Það voru rimlagardínur í glugga vinstra megin sem vísaði út í garð. Nokkrar ljóstírur brutu sér leið á milli þeirra. Rökkvi fann herbergið anda í takt við sig.
Hann var heima.
Pabbi hans gekk inn í skúrinn, hæglátur að vanda. Hann nam staðar við rúmgaflinn, en hann horfði ekki á Rökkva. Í stað þess leit hann í kringum sig, og festi augun á einum stað í horni herbergisins.
„Ahh … gamla hobbýherbergið,“ sagði hann. Það var eins og hann væri að horfa á skaparann sjálfan.
Rökkvi lokaði augunum. Hann gat alltaf hugsað betur með lokuð augun.
Í þá daga gengu nunnur um ganga skólans og prestar réðu öllu milli himins og jarðar. Þannig hafði það verið í langan tíma, allt frá því...
Fyrir nokkrum árum var ég sannfærður um að ég myndi deyja ungur. Að ég myndi deyja bráðum. Ætti í mesta lagi ár eftir eða svo...
Lilja var mætt á fundinn korter í. Hún bjóst við að vera fyrst á svæðið — en fólk var þegar farið að tínast inn. Þær örfáu hræður sem...