Herbergi að eilífu
- Breece D'J Pancake
- Nov 10, 2019
- 10 min read
Updated: Aug 6, 2023
Það er gamlárs, svo ég fæ stóra herbergið, átta dollara herbergi. En það virkar minna en það var; og þegar ég sit við gluggann, horfi út á regnið og bæinn, þá veit ég að biðin nagar mig að innan á ný. Ég ætti aldrei að koma í þessa litlu árbæi áður en dráttarbáturinn minn kemur í höfn — en ég mæti alltaf snemma, bíð, horfi á fólkið úti á götunum. Úti flökta gufulampar fjólubláu ljósi, birtan endurkastast frá gangstéttunum, snýr uppá allan lit. Fáeinir vegfarendur ganga í súldinni, en þeir nema ekki staðar til að horfa inn um fátæklega búðarglugga.
Handan gatnanna sé ég ánna í flekkjum milli bygginga, og svörtu samskeyti árinnar eru frosin í þokusúldinni. En það er alltaf sama sagan á sjónum. Á morgun hefst annar mánuður á sjó, svo mánuður á landi — aðeins sögurnar sem við segjum munu breytast, snúast um aðra tíma og önnur nöfn. En það verður sama áhöfnin á Delmar, sömu skyldurnar í átján tíma á dag, og fljótlega verða engar sögur eftir. En nú bíð ég, horfi á vindinn þeyta regni á rúðurnar og máða út glerið.
Ég sting rafdisknum í samband til að laga kaffi, fletti blöðunum í leit að einhverju að gera, en það er hvorki glíma né box í kvöld, og jafnvel keilusalurinn er lokaður á gamlárs. Ég gæti kannski farið á bar á breiðgötunni, fagnað örlítið, en ekki ef ég þarf að horfa uppá prammarottur og ganga eftir votum stálhandriðum í fyrramálið. Mér er nær að kaupa mér viskí og drekka mig í svefn, mér er nær að hugsa ekki um að fara út.
Ég helli of snöggt í mig kaffinu, brenni á mér munninn. Ekkert gengur sem skyldi. Ég hugsa að það sé það sem ég þoli ekki við gamlárs — vissulega er það nýtt upphaf — en ég hugsa aftur til partýjanna sem við héldum í landhelgisgæslunni, og þegar við beittum öllum tiltækum ráðum árið sem við urðum afleysingamenn. Og mér líður ömurlega við að sitja hér og hugsa um partýin og vinnuna og nýja árið og gamla útslitna árið. Mig langar að hypja mig héðan út — ég hef verið inni of lengi.
Ég sæki jakkann minn og húfuna, stend svo fyrir utan dyrnar og kveiki mér í sígarettu. Stigagangurinn er upplýstur til að fæla burt hórurnar og rónana. Dyrnar handan gangsins opnast og dragdrottningin gægist út, deplar augunum: „Gleðilegt nýtt ár.“ Hann lokar dyrunum hljóðlátlega á eftir sér og ég læt vaða, sparka í dyrnar, sóða út málninguna með skósólunum. Ég heyri í honum inni í herberginu, hlæjandi að mér, hlæjandi vegna þess að ég er einn. Ég heyri hláturinn í honum alla leið niður stigann. Hann hefur rétt fyrir sér: Mig vantar konu — ekki bara lélega drós — mig vantar friðinn í þögninni eftir á, það sem drósir vita ekkert um. Þegar ég kem í anddyrið fullt af feitum kellingum og gömlum köllum, hugsa ég að þetta sé eina heimilið mitt. Kannski hef ég keypt þetta herbergi að eilífu — ég þarf ef til vill ekki á öðrum dvalarstað að halda eftir kvöldið í kvöld.
Ég stend undir markísunni, reyki, horfi aftur í anddyrið á gamla pakkið. Ég hugsa um hvað allir fóstrarnir mínir voru gamlir og flest þeirra dánir núna. Það er kannski eins gott að þeir séu dánir annars mundi ég ef til vill fara og heimsækja þau og sýna þeim í tvo heimana. Ég fengi engar bætur núna og ég er of gamall til að vera hýddur.
Ég fleygi sígarettunni minni, horfi á hana skoppa niður í holræsið og milli rimlana. Hún verður örugglega komin til Mississippi á undan Delmar. Ég er orðinn ruglaður á því að slæpast í þessum bæjum í níu mánuði; gangandi á prömmum og dragandi akkeri í kluss á höfum úti hefur loksins fleytt mér hingað með restinni af ófétunum. Nú er mér illt í munninum eftir að hafa brennt mig á kaffinu, og mig langar varla að detta í það. Ég geng niður götuna, horfi á fólkið þegar það gengur framhjá, og hugsa að jafnvel drósirnar í síðu plastfeldunum gangi eins og þær séu á leiðinni eitthvað. Ég hugsa að ég sé að verða býsna daufur í dálkinn ef þessar gömlu gyltur eru farnar að líta vel út.
Ég geng þar til ég sé róna hendast fyrir horn milli tveggja bygginga. Hann er með varmann í sér og er vel í því. Ég nem staðar til að horfa á byttuna breiða út rúmið sitt með dagblöðum, en vindurinn feykir blöðunum á víð og dreif. Það er fyndið að fylgjast með þessu óféti eltast við blöð, gömlu fótleggirnir við það að hrynja undan honum. Athvörfin hleypa honum ekki inn vegna þess að hann er með varmann í sér, svo þessi gamlingi verður að eltast við blöðin sín í kvöld. Ég stend, glotti og bíð eftir því að hann kasti upp varmanum af öllum hamaganginum en glottið hverfur af vörum mér þegar ég sé hana standandi í dyragættinni.
Hún er bara krakki — fjórtán, fimmtán ára — en hún starir á mig eins og hún viti hvað ég er að hugsa, hverju ég bíð eftir að sjá henda þennan gamla róna. Og hún heldur áfram að horfa á mig líkt og hún sé Reiði Guðs eða eitthvað. Mig verkjar í augun við að gjóta til hennar hornauga meðan ég sný mér í átt að rónanum, en ég horfi samt sem áður. Ég sé það strax á henni að hún er ekki drós. Hún ber sig meira eins og krakki sem átti eitt sinn heimili — gallabuxur, alvöru regnjakki, plasttrefill vafinn utan um höfuðið. Og hún er alltof ung fyrir þennan bæ — löggan leyfir ekki smástelpum að ganga þessar götur óáreittar. Ég hugsa að hún hafi líklegast strokið að heiman, og þá tegund er erfitt að átta sig á. Ég geng framhjá henni, gef henni engan gaum, skýst svo inn í sjoppu.
Prins Albert situr við afgreiðsluborðið og talar við sjálfan sig, rennir ryðguðum fingrum í gegnum hárið og skeggið. Hann er gulur á hörund vegna þess að hann steikti á sér heilann með fjörutíu volta kerfi um borð í Cramer. Ég frétti að hann hefði verið góður rafvirki, en nú er hann bara öryrki, og hann er skítugur og lyktar eins og hver annar róni úti á götu.
Ég borða kleinuhringinn minn, sötra kaffi og horfi út um gluggann. Umferðin hrannast upp, það fjölgar í partýjunum. Stúlkan gengur framhjá, horfir á mig inn um búðargluggann líkt og hún viti nákvæmlega hvenær ég muni skjögra niður milli tveggja pramma. Ég fæ hroll við tilhugsunina svo ég skil kaffið mitt eftir, fæ mér viskí og blund, en þegar ég kominn út er hún komin langt niður götuna og gengur í áttina að hrörlegu börunum á breiðgötunni. Rigningin hvæs hástöfum og þeytir vatnselgnum meðfram gangstéttunum. Ég fylgi henni þar til hún nemur staðar í einni dyragættinni. Húfan mín er gegndrepa og vatn er farið að renna niður andlitið og hálsinn, en ég geng í áttina að dyragættinni, stend í rigningunni og horfi á hana.
Hún segir, „Viltu kaupa mig?“
Ég stend þarna dágóða stund og reyni að átta mig á hvort hér séu brögð í tafli.
„Ertu með herbergi?“
Hún hristir höfuðið, horfir handan götunnar, síðan upp og niður hana.
„Við skulum nota mitt, en mig vantar áfengi.“
„Allt í lagi, ég veit um stað sem selur það,“ segir hún.
„Ég veit um betri stað.“ Ég læt ekki gabba mig. Ég ætla ekki að láta melludólginn hennar vaða yfir mig. En eitthvað truflar mig — ég skil ekki hvers konar melludólgur er ekki með herbergi. Ef hún stendur ein í þessu endist hún ekki lengur en í tvo daga með löggurnar og melludólgana á eftir sér.
Við göngum niður götuna í átt að vínbúð. Það er gott að hafa einhvern með sér, en hún virðist of alvarleg, líkt og hún sé bara að hugsa um upphæðina í þessu. Ég kaupi flösku af Jack Daniel’s og reyni að kítast. „Við Jack erum gamlir félagar,“ segi ég, en hún lætur eins og hún heyri ekki í mér.
Þegar við komum inn í anddyrið á hótelinu, gera tveir gamlir menn hlé á tali sínu og horfa á okkur. Ég hugsa að þeir hljóta að vera graðir í hana, öfunda mig, og ég er ánægður að þessir gamlingjar séu að veita okkur athygli. Þegar við erum komin fyrir utan herbergið mitt tek ég mér tíma í að opna og vona að drottningin gægist út, en hann er farinn eitthvað að hella í sig. Við stígum inn og ég sæki handklæði til að þurrka okkur, laga kaffi fyrir viskíið.
„Þetta er fínt,“ segir hún.
„Já. Þeir spreyja reglulega.“
Hún brosir í fyrsta skipti, og ég hugsa að hún ætti að vera úti í parísarleik eða eitthvað.
„Ég er ekkert góð í þessu,“ segir hún. „Fyrstu kónarnir meiddu mig frekar illa, svo ég er alltaf dáldið hrædd.“
„Það er vegna þess að þú hefur þetta ekki í þér.“
„Nei, það er bara það að mig vantar stað. Ég verð að hætta að flakka á milli staða, skiluru?“
„Já.“ Í glugganum sé ég draugana okkar gegnt svarta glája glersins. Hún vefur handlegg utan um mig og það hvarflar að mér að við ræddum aldrei upphæðina.
„Af hverju komstu til mín?“ segir hún.
„Þú horfðir undarlega á mig — líkt og þú hefðir séð að eitthvað skelfilegt mundi koma fyrir mig.“
Hún hlær. „Ég gerði það ekki. Ég var að vega og meta þig.“
„Já. Ég er bara taugaóstyrkur í kvöld. Ég er annar stýrimaður á dráttarbáti. Það er frekar hættulegt.“
„Hvað gerir annar stýrimaður?“
„Allt sem að skipstjórinn og fyrsti stýrimaðurinn gera ekki. Þetta er ekkert merkilegt líf.“
„Af hverju hættirðu ekki bara?“
„Það er margt verra til. Það þýðir ekkert að hætta bara.“
„Kannski ekki.“
Hönd hennar á hálsinum á mér fær mig til að brosa til hennar, hugsa hlýtt til hennar. „Af hverju hættiru ekki að reyna að vera drós? Það á ekki við þig. Þú ert betri en það.“
„Það er fallegt að þér skuli finnast það.“
Ég horfi á hana, hugsa hvað hún gæti orðið ef hún fengi einhver tækifæri. En hún fær þau ekki hér. Það eru engin tækifæri að fá hér. Ég gæti sagt henni frá fósturfjölskyldunum mínum eða konunum á velferðarskrifstofunum, og hvernig þær horfðu á mig þegar þær sendu mig með rútu í næsta bæ, en hún mundi ekki skilja það. Ég slekk ljósið og við klæðum okkur úr fötunum, klöngrumst upp í rúm.
Það jafnast ekkert á við myrkrið. Þar eru engin andlit, ekkert tal, bara hlýtt hold, eitthvað nálægt og blítt, eitthvað til að týna sér í. En þegar ég tek hana, veit ég hvað ég hef í höndunum — lítinn stúlkulíkama sem hreyfir sig hvorki af þreytu né unaði, barn að leika hóru, og mér finnst ég ljótur þegar ég er með henni, og það er hennar vegna. Ég klöngrast ofan á hana eins og fleiri gerðu á undan mér. Ég veit að ég er að meiða hana, en hún mun aldrei þekkja neitt annað. Hún kjökrar og líkaminn minn kippist til, síðan eftirá, hjúfrar hún sig í hring í burtu frá mér og ég snerti hana. Hún er dofin.
Ég segi, „Þú getur verið hér út mánuðinn. Ég meina, ef þú vilt, ég get borgað leiguna og þú getur fundið þér alvöru vinnu og borgað mér til baka.“
Hún liggur bara þarna.
„Kannski geturðu fengið þér vinnu niður í bæ hjá Sears eða Penney’s.“
„Af hverju heldurðu ekki bara fokking kjafti.“ Hún klöngrast framúr. „Borgaðu mér bara, ókei?“
Ég stend upp, finn buxurnar mínar, dreg tvöþúsundkall upp úr vasanum og rétti henni. Hún lítur ekki á seðilinn, en grípur jakka sinn, hleypur út um dyrnar.
Ég sit á rúminu, kveiki mér í sígarettu og það fer um mig hrollur við tilhugsunina um hvað gæti komið fyrir þessa stúlku; síðan tel ég mér trú um að þetta hafi bara verið tíma- og peningasóun. Ég hugsa aftur til menntaskólaáranna þegar ég var með Jane. Foreldrar hennar skildu okkur ein eftir inní stofu, en púðluhundurinn hennar var alltaf hangandi utan í löppinni á mér. Við vorum að reyna að eiga samræður en hundurinn hélt áfram að riðlast á löppinni á mér. Mig langar helst að fara út og elta upp hundinn, en þannig er þetta alltaf — tíma- og peningasóun.
Ég drep í sígarettunni, halla mér aftur á rúminu með ljósin kveikt, og hugsa um Prins Albert með kleinuhringamylsnur í skegginu, kaffibletti á skyrtunni. Ég hugsa að það hljóta að vera tíu hans líkir í hverjum einasta bæ í óseyrinni, og að líkurnar á því að enda eins og hann hljóti að vera býsna lágar. Eitthvað fer úrskeiðis og maður grípur í rangan vír, misstígur sig. En ef ekkert fer úrskeiðis, þá er maður mánuð á sjó, mánuð á landi, og ef maður er heppinn getur maður lifað þannig út sína ævidaga.
Ég klæði mig og fer aftur út. Það er enn rigning úti og splunkuýjar frostrósir skína á kaldri gangstéttinni. Milli húsa sofa rónar í ruslinu sem þeir hafa týnt saman, og ég minnist þess að hafa heyrt um einhvern klikkhaus sem skar róna á háls, en ég man ekki hversu marga hann drap. Rónarnir eru eins og Prins Albert, týndu lukkunni, enduðu á götunni.
Ég færi mig yfir á breiðgötuna, geng hægt meðfram troðfullum krám, horfi inn um gluggana á allt lukkulega fólkið að skemmta sér á gamlárs. Þá sé ég hana sitja við borð við bakdyrnar. Ég fer inn, fæ mér sæti við barinn, panta einfaldan viskí. Það er þykkur reykjarmökkur inni, en ég sé spegilmyndina hennar í speglinum fyrir aftan barinn. Ég sé það á því hvernig varirnar hanga máttlausar að hún er vel í því. Ætli hún viti nokkuð að hún geti ekki drukkið sig frá þessu.
Ég horfi í kringum mig. Allir hér inni eru hér vegna þess að þeim var ekki boðið í partý. Þetta er fólk sem vill spila smá billjarð eða kúluspil, fá sér aðeins neðan í því. Allan ársins hring gnísta þau tönnum — þau dæla bensíni, þjóna og ríða drósum og beituhommum, og þau þola það ekki, en þau vita að þau eru heppin að fá það.
Ég leita hennar í speglinum en hún er farin. Ég hefði séð hana fara út um framdyrnar, svo ég hendist út um bakdyrnar í staðinn og leita að henni. Hún situr meðvitundarlaus upp við byggingu í rigningunni. Þegar ég hristi hana sé ég að hún hefur skorið sig á púls á báðum höndum alveg niður að olnbogum, en blóðið hefur storknað í köldu regninu svo það seytlar bara örlítið út þegar ég hreyfi við henni. Ég fer aftur inn.
„Það er einhver stelpa þarna úti sem reyndi að kála sér.“
Fjórir menn sem standa við barinn hlaupa út til hennar og bera hana inn. Barþjónninn grípur símtólið. Hann segir við mig, „Þekkirðu hana?“
Ég segi, „Nei. Ég fór bara út að fá mér ferskt loft.“ Ég fer út um dyrnar.
Barþjónninn kallar „Hey, félagi, löggan vill örugglega tala við þig; hey, félagi …“
Ég geng meðfram breiðgötunni og hugsa um hvernig skítur sekkur alltaf og að allir þessir bæir sturti skítnum sínum niður ánna sem fleytir honum niður óseyrina. Síðan hugsa ég um stelpuna sitjandi í húsasundinu, sitjandi í eigin blóði og ég hristi höfuðið. Ég hef ekki sokkið svo lágt.
Ég nem staðar við rútubiðstöðina, horfi inná fólkið og hugsa um alla staðina sem þau eru að fara á. En ég veit að þau geta ekki hlaupið undan því, drukkið sig frá því eða dáið til að losna við það. Það er alltaf þarna, þú bara horfir á einhvern og þau horfa á þig eins og Reiði Guðs. Ég held í áttina að bryggjunni. Geng niðureftir til að sjá hvort Delmar hafi kannski lagt að snemma.
Íslensk þýðing eftir Ísak Regal.
J.P. og ég sitjum á veröndinni á Frank Martin afvötnunarstöðinni. Líkt og flestir hérna á Frank Martin, er J.P. fyrst og fremst...