Sáluhjálp mín
- Ísak Regal
- Apr 4, 2024
- 7 min read
Í þá daga gengu nunnur um ganga skólans og prestar réðu öllu milli himins og jarðar. Þannig hafði það verið í langan tíma, allt frá því að skólinn var stofnaður á þessari sömu lóð og löngu áður en ég steig fæti þar inn. Faðirvorið var þulið á morgnana, stundum á milli samanbitinna tanna, og hver einasti kennari og starfsmaður var einhvers konar furðufugl eða sérvitringur. Allt frá smíðakennaranum, Sveini, risavöxnum manni með átta og hálfan putta, til Helgu umsjónarkennarans, sem minnti á spákonu í gömlu ævintýri.
Sveinn var alltaf í sömu köflóttu skyrtunni og axlaböndum. Hann var með grátt skegg og þrumandi rödd sem hljómaði eins og hún gæti rifið sundur stál. Þegar hann snöggreiddist, sem gerðist oft, heyrðist hún alla leið niður gang og í næstu stofu og gerði krökkunum bilt við. En þrátt fyrir bráðlyndið var hann líklega almennilegasti og ljúfasti kennarinn í öllum skólanum.
Hann kom einu sinni heim til mín með lítinn trébát sem ég hafði smíðað í 2. bekk. Ég hafði þá verið veikur í viku og hann kom og afhenti foreldrum mínum bátinn. Hann sagði að hann vildi koma með hann handa mér þar sem skólaárið var að líða undir lok og ekki víst að ég kæmi aftur fyrir útskrift.
Ég man eftir lyktinni á ganginum, grænu veggjunum, prestakrögunum. Mest af öllu man ég eftir turninum.
Til að komast þangað upp þurfti maður að ganga hringstiga sem lá upp á aðra hæð þar sem saumastofan var. Við hliðina á henni var svo einhver stofa sem var aldrei notuð. Og á milli þessara tveggja dyra stóðu tveir stórir glerskápar fullir af uppstoppuðum dýrum.
Fyrir hvern einasta saumatíma þrýsti ég nefinu upp að glerinu og grandskoðaði hverja skepnu fyrir sig.
Þessi dýr voru ekki af sömu tegund og dýr í öðrum skólum. Ég er sannfærður um það. Sum þeirra voru ófreskjur.
Í skápnum vinstra megin voru fuglarnir og öll spendýrin. Haförn stóð tignarlegur á efstu hillunni, fálki við hlið hans – smyrill – spói – hrossagaukur.
Svo voru það spendýrin. Refur – kópur – kanína – hagamús.
Síðast en ekki síst var auðvitað dýrið sem enginn gat borið kennsl á – apakötturinn. Hann var með beittar tennur og tryllt augnaráð. Líklega plast þegar ég spái í það, en ég fattaði það ekki þá.
Í skápnum hægra megin voru skriðdýr, egg úr ýmsum fuglum, fóstur, slöngur í krukkum að gerjast í eilífðinni.
Ugh. Krípí.
Það minnir mig á þegar ég var í unglingavinnunni og fann flösku af snákavíni í ruslatunnu. Þetta er drukkið sums staðar í Kína og suðausturhluta Asíu. Slöngum, helst eitruðum, er komið fyrir í vínkrukkum þar sem þær gerjast mánuðum saman. Slöngurnar eru stundum settar lifandi í krukkurnar þar sem þær drukkna svo, eða þær eru settar á ís, þær skornar upp, innyflin fjarlægð og svo eru þær saumaðar aftur saman. Þegar þær eru teknar af ísnum, vakna þær skyndilega og slengjast um áður en þær stífna upp í árásargjarnri pósu og deyja. Þetta ljær þeim ógnvænlegt yfirbragð í flöskunum.
Sumar slöngur geta lifað mánuðum saman án þess að borða. Og af augljósum ástæðum er þessi hefð, sem er sögð hafa heilandi áhrif á fólk, stórhættuleg. Ég las frétt um konu í Kína sem keypti snákavín og ætlaði að fá sér sopa þegar slangan, sem allir héldu að væri löngu dauð, beit konuna í tunguna. Slangan hafði þá verið sprelllifandi allan tímann. Bíðandi færis.
Ég fékk þetta sama á tilfinninguna þegar ég var krakki og starði í krukkurnar. Stundum fannst mér ég sjá skriðdýrin hreyfast. Ég benti einhverjum á það einhvern tíma en enginn trúði mér. Auðvitað voru slöngurnar bara að þykjast vera dauðar. Bíðandi færis. Meira að segja eggin í krukkunum virtust í þann mund að klekjast. Ungarnir yrðu frosnir í tíma.
Ég stalst oft upp í turn til að skoða apaköttinn. Eða hvað sem þetta var. Og í hvert sinn sem við fórum í saumatíma var ég síðastur inn í stofu og fyrstur út, nefið límt við glerið. Ég spurði alla í kringum mig hvaða dýr þetta væri en enginn gat svarað mér. Þegar pabbi kom einhvern tímann að sækja mig dró ég hann upp í turn, benti á apaköttinn og bað hann vinsamlegast um að útskýra fyrir mér hvaða ófreskja þetta væri eiginlega. Hann sagði eitthvað um sjaldgæfa apategund frá ströndum Suður-Ameríku. En ég man ekki hvað heitið var. Og ég get ekki spurt hann núna.
Í síðustu viku ákvað ég að fara aftur og heimsækja skólann. Ég hafði ekki stigið fæti þangað inn síðan ég var krakki. Ég hringdi á undan mér og útskýrði fyrir konunni á skrifstofunni að ég væri fyrrum nemandi og langaði að koma og heimsækja gamlar slóðir. Hún sagði að það væri ekkert mál og ég gæti kíkt við í vikunni og þar með var það ákveðið.
Ég tók mér frí í vinnunni. Ég var búinn að tala um þetta við Birnu og reyndi eftir bestu getu að útskýra þetta fyrir henni. Guð má vita hvað hún heldur í raun og veru, þrátt fyrir þessi augu sem reyna alltaf að sýna mér samúð og skilning.
Ég vaknaði snemma og skreið fram úr. Ég settist á rúmstokkinn og klæddi mig í sokka. Birna hagræddi sér undir sænginni og gaf frá sér lága stunu.
„Gangi þér vel,“ sagði hún án þess að opna augun.
„Takk,“ sagði ég. „Ætlarðu upp í stúdíó í dag?“
„Mmm . . . kannski.“
Ég heyrði í slyddunni fyrir utan gluggann og sá að grá ský þöktu himininn. Stormur hafði geisað um nóttina. Og það var búið að spá fyrir asahláku.
Ég hugsaði um að sleppa þessu. Skríða aftur undir sæng og sofna. Bíða eftir að Birna færi upp í stúdíó. Hugsunin hvarflaði að mér en hvarf jafnóðum. Ég vissi að ég yrði að fá að sjá hann.
Ég stóð upp frá rúminu og greip skyrtu af fataslánni. Svo hallaði ég mér aftur að Birnu og kyssti hana á
kinnina, strauk á henni hárlubbann. Hún varð mömmulegri og bústnari með hverjum deginum sem leið.
Fyrst reyndi ég að hunsa það. En uppköstin og stöðugt næturbröltið gerðu það að raunveruleika. Stundum held ég að ég sjái hann inni í maganum á henni. Og stundum finnst mér ég geta heyrt í honum – apakettinum sem við bjuggum til, og ég velti fyrir mér hve ört hann stækkar.
„Gangi þér vel í dag,“ sagði Birna, ennþá með lokuð
augun.
„Já,“ sagði ég og leit út um gluggann.
Íbúðin okkar var í göngufæri við skólann, en ég var samt orðinn veðurbarinn og tárvotur þegar ég steig inn um dyrnar.
Ég var staddur í gömlu álmunni minni þar sem ég var vanur að klæða mig í skó á leiðinni út í frímínútur.
Bekkurinn fyrir framan mig var svo lágur að mér leið eins og risa, nýstiginn inn í mannheima.
Allt var svo ótrúlega smátt. Ég var umkringdur pínulitlum stígvélum og örsmáum skóm. Það var óhugsandi að ég hefði nokkurn tíma verði svona lítill. Ég gat haldið á stígvéli á milli þumals og vísifingurs. Fyrir aftan mig héngu föt á snögum á veggnum og lyktin læddist aftan að mér. Þessi gamla og kunnuglega lykt fyllti mig að innan og minningarnar helltust yfir mig.
Það ríkti þögn á ganginum. Skólatöskur lágu á víð og dreif eins og fallin lauf. Nunnur voru hvergi sjáanlegar. En þögnin var sú sama.
Ógnvænleg. Þrúgandi.
Ég gekk fram og aftur um ganginn og sá að það voru nokkrir uppstoppaðir fuglar hér og þar – en engin
framandi dýr. Enginn api. Ég horfði út um gluggan á leikvöllinn en það var enginn þar. Ég skoðaði matsalinn líka. Tómur. Ég fann grænu veggina elta mig hvert sem ég fór, en ég fór hvorki upp á skrifstofu né upp í turn. Eitthvað kom í veg fyrir það. Ég mun aldrei vita nákvæmlega hvað. Ef til vill var ég ekki tilbúinn að horfast í augu við það sem ég veit að bíður mín handan við dyrnar. Og það er ekki bara þessi apaköttur. Það er þessi fjandans skóli sem hefði átt að brenna til grunna fyrir löngu síðan.
Ég gekk aftur út í slabbið og staulaðist heim. Skórnir hennar Birnu voru ennþá á sínum stað við dyrnar. Ég klæddi mig úr úlpunni, kastaði af mér skónum og fór inn í eldhús og fór að laga kaffi í mokkakönnunni.
Þegar það var tilbúið settist ég með það við eldhúsborðið og teygði mig í dagbókina sem sálfræðingurinn minn hafði sagt mér að nota. Ég hafði ekki verið duglegur við að skrifa í hana undanfarið. Alltaf þegar ég hef orð á því að tilfinningarnar mínar séu óeðlilegar og skrítnar reynir Katrín að sannfæra mig um að svo sé ekki. Það er ekkert óeðlilegt við að upplifa þessar erfiðu tilfinningar, segir hún. Það er bara hvernig fólk bregst við þeim sem skiptir máli.
Ég heyri Birnu opna dyrnar að svefnherberginu og ganga inn á bað. Því næst heyri ég í sturtunni og ég fer að velta fyrir mér hvað varð um alla strákana sem voru með mér í skóla. Ég frétti að einn þeirra hefði framið sjálfsmorð um daginn. Suma hef ég hitt á förnum vegi, þeir eru með skeggrót og bauga, sumir með þunnt hár og þeir líta út eins og eldri bræður vina minna þegar ég var yngri. Þeir eru í öðrum heimum núna. Heimum langt frá nunnum og ófreskjum í glerskápum. Hárið mitt er farið að þynnast líka og stundum gleymi ég hversu gamall ég er.
Ég hætti við að skrifa í dagbókina og legg hana frá mér. Birna kemur inn í eldhús með handklæði vafið um höfuðið.
„Hvernig gekk?“ spyr hún
„Vel,“ segi ég og horfi á konuna mína sækja múmínálfabolla upp í skáp og hella restinni af kaffinu í hann.
„Komstu að því hvaða dýr þetta var?“
„Ö, nei,“ segi ég. „Nei ég komst ekki að því. Ég fór reyndar ekki upp í turninn. Það var greinilega búið að breyta eitthvað til þarna. Færa dýrin úr skápnum. Það voru fuglar á ganginum og eitthvað. Enginn apaköttur.“
„En fórstu ekki upp á skrifstofu og spurðir?“
„Nei.“
„Af hverju ekki?“
„Veit það ekki,“ segi ég og horfi á dagbókina fyrir framan mig. Kannski ætti ég að skrifa eitthvað í hana. „Kannski er ekki gáfulegt að fara aftur í barnæskuna og skoða allt þetta drasl.“
Birna brosir móðurlega til mín. Hún lítur svo öðruvísi út stundum. Kemur mér furðulega fyrir sjónir. Það er eins og hún hafi mörg andlit. Og ég elska þau mismikið.
Fyrr en varir verður apakötturinn okkar kominn í heiminn. Blóðugur og slímugur og öskrandi. Pínulitlir fingur sem teygja sig áttina til mín.
Um nóttina dreymir mig draum. Ég er staddur upp í turni, á einni hillunni í glerskápnum. Ég get ekki hreyft mig. Ég er stjarfur, en samt með meðvitund – eins og þegar hugurinn er vaknaður en líkaminn er ennþá sofandi.
Fyrir framan mig, á móti skápnum, standa margir apakettir í hring og benda og pískra eitthvað sín á milli. Þeir eru að benda á mig. Þeir eru að vega og meta, greina, reyna að átta sig á hvað þetta er sem stendur fyrir framan þá.
Fyrir nokkrum árum var ég sannfærður um að ég myndi deyja ungur. Að ég myndi deyja bráðum. Ætti í mesta lagi ár eftir eða svo...
Lilja var mætt á fundinn korter í. Hún bjóst við að vera fyrst á svæðið — en fólk var þegar farið að tínast inn. Þær örfáu hræður sem...
Ég er stödd í strætó og stór og mikil svört kona horfir á mig eins og ég sé dóttir hennar. Hún er bæði áhyggjufull og vonsvikin á...
Comments