Tengingar
- Ísak Regal
- Apr 30, 2023
- 7 min read
Updated: Nov 12, 2023
Fyrir nokkrum árum var ég sannfærður um að ég myndi deyja ungur. Að ég myndi deyja bráðum. Ætti í mesta lagi ár eftir eða svo. Það breyttist allt þegar Arnór dó. Kata, fyrrverandi kærastan hans, sagði mér fréttirnar. Ég var á leiðinni heim úr ræktinni þegar ég leit á símann.
Arnór er dáinn.
Það var allt og sumt. Ég vissi að hún væri ekki að ljúga. Það fyrsta sem mér datt í hug að gera var að kaupa mér sjitt tonn af kókaíni og áfengi, fara heim og stúta því. En ég vissi að ég myndi vakna ónýtur daginn eftir. Og að Arnór myndi ennþá vera dauður.
Ég kynntist Arnóri í gegnum sameiginlegan vin. Fyrst þegar ég kynntist honum fannst mér lítið í hann spunnið. Hann var nörd. Og hann og Kata voru mestu kærustufaggar í heimi. Alltaf bólufreðin að hlæja að einhverju sem enginn skildi. Þau voru svona par sem hefði alveg eins getað verið systkini. Þau hlógu að sömu bröndurunum og kláruðu setningar hvort annars. Arnór öðlaðist fyrst virðingu mína þegar ég horfði á hann koma vitinu fyrir félaga minn sem var í fíkniefnamaníu, algengar maníur í þá daga. Hann sagði hluti sem ég þorði ekki að segja.
Ég og félagi minn misstum samband stuttu eftir að ég kynntist Arnóri og Kötu. Það var klikkað sumar. Sumar undarlegra tilviljana og stundargeðveiki. Félagi minn var að leigja kjallara í Hlíðunum, neðanjarðar undir bílskúr. Pabbi hans hjálpaði til við að setja upp stúdíó. Við vorum með tölvu, hátalara, gítara, bassa, allt til alls. Þetta var geggjað stúdíó, þó að það væri í kjallaraholu. Félagi minn bauð alls konar fólki að koma og hanga þarna. Meðal þeirra voru Arnór og Kata sem hann hafði þekkt síðan í 10. bekk. Langflestir mættu bara til að taka dóp og hanga, frekar en að búa til tónlist. Þetta voru ekkert sérlega afkastamiklir tímar. En eins og ég sagði — klikkað sumar.
Ég sá Arnór ekki aftur fyrr en um það bil einu og hálfu ári seinna. Ég sat á bókasafninu og var að læra þegar einhver grindhoraður gæi kemur upp að mér og horfir á mig uppspenntum augum og brosir breiðasta brosi sem ég hef séð. Þetta var Arnór. Ég sá það strax á glampanum í augunum á honum að hann hefði farið handan veggja raunveruleikans, séð eitthvað og komið aftur til baka án þess að geta afséð það. Ég trúði honum varla þegar hann sagði mér hver hann var. Hann var svo ólíkur sjálfum sér. Hann sagði að hann hefði verið að lesa Blake. Ég vissi ekki hvernig ég átti að taka í það. En hann vissi af bókmenntaáhuga mínum og vildi ná til mín. Ég man það.
Nokkrum mánuðum síðar sá ég hann aftur á tónleikum niður í bæ. Ég var á leiðinni á klósettið þegar ég kom auga á brosið hans í fjöldanum. Við heilsuðumst en tónlistin var of há til að greina orðaskil.
Seinna sama ár ákváðum við félagi minn að hittast aftur og gera upp okkar mál. Stuttu eftir þetta klikkaða sumar varð smá drama og leiðir okkar skildi og við höfðum ekkert talast við síðan. Hann sagði mér að hitta sig á veitingastaðnum við veginn. Þegar ég kom inn sat hann við barinn og drakk bjór. Frændi hans og kærastan hans sátu þarna líka. Ég settist við hliðina á félaga mínum sem heilsaði mér af alúð. Það er ekki hægt að vera reiður út í þennan mann. Peysan hans lyktaði eins og veip. Gott veip, ég fann næstum því bragðið af því. Við þurftum varla að ræða ágreininginn. Ég man ekki einu sinni hvort við minntumst á það eða ekki.
En félagi minn var alltaf að minnast á það hvað hann væri mikil taugahrúga og hvað hann gæti ekki talað. Hann fleipraði orðunum út úr sér og hann var með kippi í augnlokunum. Hann sagði að hann yrði betri eftir að hann hoppaði út í aðra jónu og saup á bjórnum sínum, trommaði fingrunum í barborðið. Allir þekktu alla þarna inni— Dabbi sem sat við hliðina á okkur var kokkur, félagi minn var fyrrverandi starfsmaður, barþjónarnir þekktu hverjir aðra og það var allt í fína lagi. Samt vorum við órólegir.
„Viltu bjór?“ spurði félagi minn.
„Já,“ sagði ég. Ég leit á hendurnar á mér. Ég var glær. Hendurnar eins og á dauðum manni. Áhyggjurnar beindust að vini mínum — en ég var sjálfur ekki á góðum stað. Það var alls konar rugl í gangi hjá mér, og það hjálpaði ekki að sjá ástandið á félaga mínum.
„Marý,“ sagði félagi minn. „Getur Ómar fengið bjór? Er það í lagi? Hvernig bjór viltu?“ spurði hann og horfði á mig. Marý stóð við bjórdælurnar og augu hennar spurðu mig að því sama.
„Öö bara … Einstök er fínt sko,“ sagði ég og benti. „Takk maður.“
Marý rétti mér bjórinn og ég fékk mér sopa. Litla fyrst, til að spara. Ég átti ekki mikinn pening eftir. En eftir að ég kláraði bjórinn spurði félagi minn hvort ég vildi annan. Ég var hissa á að ég fengi tvo fría bjóra. Hann vann ekki þarna lengur.
Þegar ég spurði hvað væri að frétta sagði hann:
„Nei, Dabbi er þarna sko,“ og benti á frænda sinn sem sat á endanum, kærastan hans sat á milli okkar.
Dabbi var viðkunnanlegur náungi, rauðhærður og alltaf eldrauður í framan með djúpa og fyndna rödd. Hann tók öllu með jafnaðargeði. Ég þakkaði honum fyrir bjórinn þegar við fórum út í sígó. Ég spurði hvort hann væri vaktstjórinn eða DON staðarins eða hvað. Hann gaf ekki frá sér skiljanlegt svar. Ég fattaði ekki fyrr en seinna um kvöldið að ég þurfti að borga alla drykkina mína sjálfur. Félagi minn ítrekaði það við mig að hann hefði aldrei sagt að hann væri að bjóða mér þá. Þegar ég spurði Dabba sagði hann:
„Ég hélt bara að Geiri væri að fokka í þér.“
Ég hef enn ekki fengið botn í þetta mál. Við hoppuðum út í jónu og fengum okkur annan bjór þegar við komum inn. Kvöldið var lengi ungt. Sólin lengi að setjast.
Ég var enn órólegur. Enn blankur. Ég var að reyna að taka mér pásu. Það var eitt af vandamálunum. Og ég hafði enga hugmynd um hvernig ég ætlaði að díla við þau.
Svo kom Arnór.
Hann kom og settist hjá okkur — fyrir aftan okkur reyndar, allir barstólarnir voru uppteknir. Hann breiddi úr horuðum líkamanum, hallaði sér aftur í stólnum og brosti breiða brosinu sínu. Hann var búinn að vera edrú í 20 daga. Hann sagði mér frá því sem hafði gerst. Hann var búinn að rústa öllu heima hjá sér. Mamma hans var orðin klikkuð á honum, og það var allt að hrynja niður í kringum hann.
En sama hvað fór úrskeiðis, sagði hann, sama hversu slæmt ástandið varð þá fékk það hann ekki til að hætta.
„Það var ekki fyrr en vinkona mín sagði við mig bara: Arnór, hvað mundi það taka fyrir þig að hætta? Að taka bara 60 daga?“
„Og ég sagði: Fokkit! Letsdúitt!“
Hann var búinn með 20 daga. Það var mikið fyrir okkur þá. Það var nánast ómögulegt fyrir okkur þá. Ég sá það í augum félaga míns hvaða þýðingu 20 dagar höfðu fyrir hann. Það var að sjá á okkur eins og Arnór hefði komið inn, sest niður og sagt okkur að hann hefði klifið Kilimanjaro.
Ég sagði honum aðeins frá mínum vandamálum, því sem ég var að díla við. Og hann byrjaði að tala. Og allt sem hann sagði vakti mig til umhugsunar. Hann kveikti á perum í kollinum á mér. Orð hans voru eins og vatn fyrir þyrstan mann. Félagi minn kinkaði bara kolli allan tímann og saup á bjórnum sínum. Hann þekkti Arnór betur en ég. Arnór var gæinn sem hafði fengið 10 á samræmdu prófunum. En hann var líka gæinn sem hafði reykt meira krakk en allir félagar okkar til samans. Og við þekktum marga dópista.
Hann sagði mér, án þess að vera meðvirkur, og án þess að predika, hvernig ég gæti mögulega komið hlutunum í lag. Liðið betur.
„Haltu áfram að tala maður,“ sagði ég og drakk bjórinn minn.
„Haltu bara áfram að tala.“
Hann var með sítt ljóst hár, klæddur í hvítan íþróttagalla, með stór gleraugu fyrir framan stór augu. Flestir sem hætta í dópi hætta að tala við vini sína sem eru enn í neyslu, en ekki Arnór. Hann umgengst enn alla vini sína sem tóku dóp þó að hann væri hættur því. Hann skutlaði þeim hingað og þangað um bæinn, fór í alls konar missjón með þeim, og vakti með þeim langt fram á nótt.
Ég veit núna hvað það tekur á að vera edrú í marga klukkutíma með fólki sem er í neyslu.
„Marý, getur Arnór líka gæti fengið bjór?“ spurði félagi minn.
„Þið getið allir fengið bjór um leið og ég er búin að gera það sem ég þarf að gera,“ sagði Marý og þvoði eitthvað í vaskinum. Arnór afþakkaði bjórinn. Við gleymdum að hann væri edrú.
Arnór náði 60 dögum. En hann hélt upp á áfangann með því að falla. Stundum er ég ennþá hissa. Mér dettur engin leið í hug til að lýsa því hversu heimskulegt það er. En svona var þetta. Arnór laug að sjálfum sér þó að hann vissi að hann væri að því. Hann elskaði dóp. Hann var alltaf að segja mér það. Hann sagði að það væri eins og „cheat code“ í lífinu. Hann sagði mér það þegar hann var á þessum 60 dögum, að áður hafði hann tekið dóp til að flýja raunveruleikann. En á þessum 60 dögum hafði hann lært að elska raunveruleikann, edrúlífið það er að segja, en minntist nokkrum sinnum á að hann ætlaði örugglega að taka meira dóp í framtíðinni. Kannski til að svindla í lífinu. Kannski bara af því að hann elskaði dóp.
Við urðum mjög nánir næstu níu mánuðina. Hann hvatti mig áfram í því sem ég tók mér fyrir hendur. Hann sagði einhvern tímann að við værum týndu börn Guðs. Mér fannst við bara vera týndir.
Hann varð edrú. Svo féll hann. Svo varð hann aftur edrú. Svo féll hann aftur, og svo framvegis, og svo framvegis. Lengi hafði ég engar áhyggjur af honum, þó að aðrir í kringum mig væru stöðugt að segja mér að Arnór væri við dauðans dyr.
En Arnór kunni að höndla sig, hugsaði ég. Arnór var klár. Arnór var ekki eins og við hinir.
Ég var oft með honum þegar hann var að reykja krakk. Ég hjálpaði honum meira að segja að elda það. Ég hélt kveikjaranum stöðugum undir skeiðinni, fylgdist spenntur með draslinu malla. Ég beisaði meira að segja með honum nokkrum sinnum.
Arnór bjargaði mér. Bæði með því að lifa og með því að deyja. Á einhverjum tímapunkti byrjaði fólk að deyja í kringum mig. Í staðinn fyrir mig. Og á endanum hætti ég öllu rugli, á endanum var þetta eins og vondur draumur.
Ást mín á Arnóri hefur engan stað til að fara á núna. Stundum vildi ég að ég gæti fangað hana, lokað hana inni, en þá veit ég að ég myndi ég sakna hennar. Núna streymir hún bara frá mér í allar áttir hvenær sem er — kemur stundum út í tárum, stundum í brosi.
Ég vildi að Arnór gæti séð mig núna. Ég held hann yrði stoltur. Hann sá eitthvað í mér sem enginn annar sá. Eitthvað sem fékk hann til að brosa í hvert skipti sem ég sá hann. Og ég bíð stundum eftir því að sjá hann birtast í dyragættinni heima hjá mér, eða úti einhvers staðar, á bar eða eitthvað, og brosa þessu breiða brosi sínu. Ég sver það er það fallegasta sem ég hef séð.
Við sátum á kaffihúsi í Vesturbænum. Á gömlum viðarstólum við viðarborð sem lagaði sig að okkur eins og ábreiða á rúmi. Hún strauk á mér...
Mamma hans og pabbi voru löngu farin að sofa. En strákurinn var ekki þreyttur. Hann sat glaðvakandi uppi í jeppa pabba síns og hlustaði á...
Ég er stödd í strætó og stór og mikil svört kona horfir á mig eins og ég sé dóttir hennar. Hún er bæði áhyggjufull og vonsvikin á...
Comments